REKO er nafn á viðskiptafyrirkomulagi milli smáframleiðenda og neytenda. Nafnið er komið frá norðurlöndunum og stendur fyrir vistvæna og heiðarlega viðskiptahætti. Framleiðendur selja beint til neytenda og neytendur geta keypt vörur af fleirum en einum aðila og fengið allt afgreitt á sama tíma á sama stað. Fyrirkomulagið er hentugt bæði fyrir söluaðilann sem þarf bara að framleiða selt magn og neytandinn þarf ekki að fara á marga staði til að sækja vörur. Þá eru vörur greiddar fyrir afhendingu, það sparar framleiðendanum kostnað við sölu- og markaðsleyfi sem annars þyrfti ef selt er á staðnum.
REKO fer fram á Facebook síðum. Í dag eru alls sex REKO hópar á facebook, dreifðir um allt land. Fyrir okkur er það „REKO Vesturland“ og þar inni má finna REKO afhendingar undir viðburðum á síðunni. Afhendingar flakka síðan um landshlutann svo allir ættu að geta fundið REKO afhendingu í nágrenni við sig einhverntímann. Misjafnt er hvaða framleiðendur taka þátt í hvert skipti og eins er vöruframboðið ekki alltaf eins. Þá er líka hægt að óska eftir einhverju sérstöku eða sérpanta frá framleiðendum. Veitinarstaðir geta til dæmis óskað eftir að kaupa inn í stærri einingum. Bein samskipti við framleiðendur bjóða upp á svo margt gott sem annars væri ekki hægt.
Það er von okkar að REKO geri matarhandverki hátt undir höfði sem og allri heimavinnslu og sölu beint frá framleiðenda. Meira og beinna aðgengi að vörum úr héraði eykur líka nærsamfélagsneyslu og styrkir dreifðar byggðir. Svo er líka bara svo gaman að bjóða upp á mat og matarhandverk sem þú veist hvaðan er og hver stendur að baki því. Það má til gamans geta að REKO er starfandi í sjö löndum; í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Íslandi, Ítalíu og Suður-Afríku. Alls eru hóparnir um 400 talsins og meðlimur eru yfir 800.000 manns. Heildarveltan er um 11 milljarðar króna. Þetta getur því skipt töluverðu máli.
Comments