top of page

Einu lífrænt vottuðu verslanirnar á landinu

Viðtal frá 2017

Verslunin Matarbúr Kaju var fyrst opnuð á Akranesi sumarið 2014 og í dag hefur kaffihús bæst við og önnur verslun verið opnuð í Reykjavík. Þetta eru einu verslanirnar á landinu sem hafa fengið lífræna vottun og fyrsta kaffihúsið. „Til að fá lífræna vottun þurfa allar vörurnar sem við seljum í lausu að vera ræktaðar og unnar á umhverfisvænan hátt, án eiturefna, erfðabreyttra efna eða annarra aukaefna,“ segir Karen Jónsdóttir eigandi Matarbúrs Kaju. „Hugmyndin hjá mér er að bjóða upp á lífrænt, umbúðalaust og plastlaust. Ég hef t.d. aldrei boðið upp á plastpoka í verslununum og hingað getur fólk komið með eigin ílát og verslað þurrvöru eftir vigt og ávexti og grænmeti í lausu,“ segir Kaja.



Ef með lífrænt vottaða matvörulínu


Karen hefur einnig framleitt eigin matvörulínu sem seld er í verslununum og er það eina vörulínan sem pökkuð er hér á landi sem hefur fengið lífræna vottun. „Matvörulínan Kaja er pökkuð í endurvinnanlegar umbúðir algjörlega án hefðbundins plasts. Ef ég nota plast, sem ég geri eingöngu ef varan geymist ekki með öðrum hætti, þá nota ég plasttegund sem brotnar mjög hratt niður, á örfáum mánuðum,“ segir Karen. „Til að koma vöru í sölu hjá mér þurfa þær að standast mínar kröfur, sem er ekki alltaf auðvelt,“ segir Karen og hlær. „Ég geri þá kröfu að í vörunni séu engin efni sem ræktuð eru á heilsuspillandi hátt. Til að mynda er það algengt með snyrtivörur að olían í þeim sé ekki endilega lífræn þó snyrtivaran sjálf sé með umhverfisvæna vottun. Ég geng því úr skugga um að ég geti rakið uppruna vörunnar alveg og hún sé í raun og veru alveg lífræn.“


Í Matarbúri Kaju eru seldar ýmsar matvörur, hreinlætisvörur, snyrtivörur og ýmsar heimilisvörur. „Nýlega fór ég í samstarf við Brauð og Co en ég fæ send frá þeim nýbökuð súrdeigsbrauð og snúða á hverjum degi. Þessu hafa Skagamenn tekið mjög vel og rýkur þetta alveg út,“ segir Karen og brosir. „Kökurnar okkar eru einnig mjög vinsælar, enda mjög góðar þó ég segi sjálf frá,“ segir hún og hlær. „Þetta eru Vegan og glútenlausar hrákökur sem búnar eru til hér í eldhúsinu og frystar svo þær haldast mjög ferskar,“ bætir hún við að lokum.


Recent Posts

See All

Comments


bottom of page