top of page

Fjölbreyttir möguleikar í námi í landbúnaði

Viðtal frá 2019

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir er einn af fjölmörgum nemendum Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún stundar nám í lífrænni ræktun við garðyrkjudeild LbhÍ að Reykjum í Ölfusi. Námið er tvö ár í dagskóla, en hún tekur það á fjórum árum í fjarnámi samhliða vinnu. „Garðyrkjuskólinn er magnaður staður. Þar er mikill mannauður og hafsjór fróðleiks fyrir ræktendur að sækja í. Ég mæli með fyrir alla þá sem ætla að stunda garðyrkju að fara í nám við skólann. Ekki síst í lífrænni ræktun þar sem oft getur verið erfitt að nálgast upplýsingar um hvað virkar í lífrænni ræktun á Íslandi. Stétt lífrænna framleiðenda á Íslandi er því miður fámenn og lítið til af upplýsingum og niðurstöðum rannsókna á vefnum. Oft er því ekki í boði að setjast við tölvuna og leita á vefnum að þeim upplýsingum sem mann vantar, heldur nauðsynlegt að forvitnast um reynslu annarra,“ segir Elínborg Erla.Hefur alltaf haft áhuga á allri ræktun


„Líklega kviknaði áhugi minn á lífrænni ræktun þó fyrst og fremst þegar ég vann við gulrótaupptöku hjá Akurseli ehf. í Öxarfirði fyrir nokkrum árum. Þá sannfærðist ég allavega um að lífræn ræktun væri möguleg á Íslandi í útiræktun á grænmeti. Þegar ég svo hélt áfram að kynna mér hlutina, lesa mér til og afla mér vitneskju um hugmyndir lífrænnar framleiðslu, heillaðist ég og hef í dag þá skoðun að það sé besta leiðin til þess að framleiða matvæli. Mikil áhersla er lögð á frjósemi jarðvegs, að ganga ekki á landsins gæði, nota ekki eiturefni og almennt að vinna allt í sátt við náttúruna,“ segir hún.


Fleiri sérgreinar í garðyrkjunni


Auk lífrænnar ræktunar matjurta er hægt að sérhæfa sig í ykrækt eða plöntuuppeldi við Garðyrkjuskólann. Námið hefst á garðyrkjuframleiðslubraut og nemendur geta svo valið á milli þessara þriggja áherslna. Nemendur útskrifast sem garðyrkjufræðingar og hafa þá hlotið verklega og bóklega þekkingu ásamt 60 vikna verknámi undir handleiðslu garðyrkjufræðings. Aðrar garðyrkjutengdar brautir sem kenndar eru við skólann eru blómaskreytingar, skrúðgarðyrkja og skógtækni. Kennsla á öllum garðyrkjubrautir fer fram á Reykjum í hjarta garðyrkjunnar.Heimavinnsla búfjárafurða


Við Landbúnaðarháskóla Íslands er einnig kennt starfsmenntanám í búfræði, en það fer fram á Hvanneyri. Nemendur þar læra almennt búfjárhald, fóðrun, hirðingu og meðferð dýra, þeir öðlast þekkingu á þörfum landbúnaðarins og á ræktun og nýtingu plantna til fóðuröflunar og beitar ásamt ræktun og kynbótum búfjár. Áhersla er ávallt á að nýta auðlindir landsins á skynsamlegan hátt með sjálfbærni og afurðir að leiðarljósi. Námið tekur tvö ár og er kennt á Hvanneyri auk þess sem nemendur fara í tólf vikna námsdvöl á búi hér heima eða erlendis.

Eitt af námskeiðunum er heimavinnslu afurða. Þar kynnast nemendur hvernig hægt er að fullnýta þær afurðir sem falla til á býlum með því að vinna þær heima við. Farið er í sláturferli á búfé ásamt nýtingu allra sláturafurða, matvinnslu og matargerð. Þau spreyta sig með vinnslu mjólkur og framleiddu t.d skyr, fetaost, ís og jógúrt. Nemendurnir fá verklega kennslu í úrbeiningu og spreyttu sig á verkun kjöts og í haust þurrkuðu þeir meðal annars hrossakjöt og komu með í tíma til að smakka og báru saman mismunandi aðferðir.

Ásamt verklegri vinnu er farið í lög og reglugerðir sem tengjast heimavinnslu afurða og farið í heimsóknir á býli sem stunda heimavinnslu eða eru aðilar að verkefninu beint frá býli. Nemendurnir sem eru á fyrsta ári í búfræði sóttu t.d. heim geitfjársetrið á Háafelli í Borgarfirði nú í haust og fengu að fylgjast með og kynnast framleiðslunni þar.Recent Posts

See All

Comments


bottom of page