top of page

Hákarlinn í hávegum hafður í Bjarnarhöfn

Viðtal frá 2017

Í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi rekur Hildibrandur Bjarnason og fjölskylda hans víðfrægt hákarla- og sveitasetur. Í safninu er hægt að fræðast um veiðar á hákörlum fyrr á öldum, verkun þeirra og notagildi og að sjálfsögðu eiga gestir þess kosts að gæða sér á hákarli sem verkaður er á staðnum. Hákarlaverkun hefur verið stunduð af fjölskyldu Hildibrandar kynslóð fram af kynslóð og er sú hefð í hávegum höfð í Bjarnarhöfn. „Hákarlaveiðar hafa aldrei verið stundaðar hér en pabbi flutti verkunarþekkinguna með sér þegar við fluttum hingað frá Asparvík á Ströndum árið 1951,“ segir Hildibrandur. Hann segist fá hákarlinn í Bjarnarhöfn af togurum víðs vegar af landinu. „Við þekkjum orðið svo margar togaraáhafnir að við erum látnir vita þegar hákarl kemur í trollið. Þeir eru að senda frá sér hákarl allt árið en mest er þó eftirspurnin á þorranum.“



Hákarlinn unninn í neytandapakkningar


Misjafnt er hvernig hákarlarnir eru þegar þeir berast frá togarasjómönnum. Mikið verk er að gera að einum hákarli til verkunar en Hildibrandur segir það vera eins og annað, ef samhent verkþekking er til staðar sé þetta auðvelt og ef hnífarnir bíti vel, þá takist þetta. Í Bjarnarhöfn tekur síðan við um hálfs árs verkun. Fyrst þarf að skera hákarlinn í hæfilegar beitur og leggja hann í kös í sérsmíðuðum kössum. Þar er hann látinn kæsast og síðan hengdur í hjall. Allt þetta ferli tekur sinn tíma sem fer þó eftir tíðarfarinu hverju sinni. Þá tekur við að sneiða niður beiturnar, allt niður í litla teninga og koma afurðinni í neytendapakkningar. Þær fara víða en stærstu kaupendur eru stór dreifingarfyrirtæki, sem jafnframt bjóða og verka aðrar sjávarafurðir. Í sumum tilvikum eru beiturnar seldar í heilu lagi frá Bjarnarhöfn og helst eru það fiskbúðir sem kaupa hákarlinn þannig og hengja upp hjá sér. Þar eru síðan skornar sneiðar af beitunni eftir óskum kaupenda.


Hákarlasafnið opnuðu Hildibrandur og fjölskylda árið 2004 og segir hann viðtökurnar hafa verið mjög góðar frá opnun. Verkþekking heimamanna, atvinnusaga og hefð tvinnast saman í Bjarnarhöfn og verður Hildibrandur ekki var við annað en að þetta veki áhuga fólks. „Hér er hægt að fræðast um allt sem tengist hákarli. Bjarnarhöfn hentar vel fyrir svona starfsemi enda eru þar bestu aðstæður til að verka hákarl. Starfsemi okkar fellur líka vel að hefð svæðisins í veiðum og verkun,“ segir Hildibrandur að endingu.



Recent Posts

See All
bottom of page