top of page

Lýðheilsustefna í mötuneyti Grunnskólanns í Borgarnesi

Viðtal frá 2019


Föstudaginn 1. nóvember var merkilegur dagur í Grunnskólanum í Borgarnesi. Þá var fyrsta máltíðin elduð í nýju og glæsilegu eldhúsi skólans en síðustu 17 ár hafa nemendur farið yfir á Hótel Borgarness til að borða í hádeginu. Fyrsti kokkurinn í nýja eldhúsinu er Borgnesingurinn Snæbjörn Óttarsson og segir hann eldhúsið vera bæjarfélaginu öllu til sóma. „Þetta er mjög vel búið eldhús og þar er allt til alls,“ segir Snæbjörn sem augljóslega er ánægður með nýju starfsaðstöðuna. Snæbjörn ólst upp í Borgarnesi og lærði kokkinn á Hótel Borgarnesi. Þá vann hann sem kokkur í Hyrnunni í nokkur ár og prófaði einnig að starfa á Brú í Hrúafirði. Þá lá leið hans til Danmerkur þar sem hann bjó í 13 ár og vann á háskólasjúkrahúsi við að elda fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga. Árið 2015 flutti hann aftur heim til Íslands og fór að vinna á Hótel Bifröst þar sem hann var til 1. desember í fyrra. Hann tók til starfa hjá Grunnskólanum í Borgarnesi 1. maí og tók því þátt í að velja inn tæki og leita að tilboðum fyrir búnað í nýtt eldhús.



Miða við að fara ekki yfir 10% fitu


Fyrsta máltíðin í eldhúsinu var pizza og voru krakkarnir allir afskaplega ánægðir með það. „Ég var búinn að hlera aðeins hvað það væri sem þau vildu og flestir töluðu um að vilja pizzu. Ég var ekkert að segja þeim hvað ætti að vera í matinn og leyfði þeim aðeins að spá í þessu og byggja upp smá spennu,“ segir Snæbjörn og brosir. Borgarnes er heilsueflandi samfélag og verður því farið eftir viðmiðum Embættis landlæknis um heilsueflandi grunnskóla í mötuneyti skólans. „Við erum með ákveðin lýðheilsumarkmið sem við förum eftir. Þau snúa mest að því að skera niður sykur og fitu og að hafa sem minnst af unnum kjötvörum. Viðmiðið er að fita sé ekki meira en 10% af hverri máltíð. Það er þó aðeins sveigjanleiki með það ef við förum yfir 10% einn daginn reynum við að fara undir það næsta dag svo meðaltalið sé ekki upp fyrir 10% fita,“ útskýrir Snæbjörn og bætir því við að í eldhúsinu sé til að mynda hvorki djúpsteikingapottur eða stórar steikarpönnur.


Ánægður á nýjum vinnustað


Aðspurður segist Snæbjörn spenntur fyrir því að elda fyrir börn. „Þau eru svo hreinskilin og ef þú stendur þig ekki færðu bara að heyra það og ég er hrifinn af því,“ segir hann og hlær. „Það er aðeins öðruvísi að elda fyrir börn. Maður kryddar matinn til dæmis ekki mjög mikið, sérstaklega ekki fyrir þessi yngstu. En það hefur komið mér á óvart að sjá hvað þau geta borðað rosalega mikið og það er rosalega gaman að gefa þeim að borða,“ segir hann og bætir því við að börnin mættu þó vera kaldari við að smakka eitthvað nýtt. „Krakkarnir eru frábærir og konurnar sem eru með mér hér í eldhúsinu líka og starfsandinn mjög góður. Ég get eiginlega ekki beðið um neitt meira,“ segir hann ánægður.



Recent Posts

See All

Comments


bottom of page