top of page

Helst ekkert úr pakka

Langaholt er eitt af þessum stóru nöfnum í ferðaþjónustunni. Langaholt er á bænum Görðum í Staðarsveit og þar bjuggu þau Svava og Símon með kýr og kindur framan af. Árið 1978 fóru þau að færa sig yfir í ferðaþjónustu og voru þau hjónin eigendur hlutabréfs nr. 2 í ferðaþjónustu bænda. Sannkallaðir frumkvöðlar í ferðaþjónustu. Þorkell sonur þeirra, Keli vert, tók við af þeim árið 2006 og í dag rekur hann staðinn ásamt konunni sinni henni Rúnu.Keli segir að sveitamennskan sé þeirra styrkleiki. „ Við erum bara í raun að gera það sama og mamma gerði hér áður og þótti eðlilegt. Nota hráefni úr héraði og vinna sjálf allt það sem við getum. Það er eiginlega ófrávíkjanleg stefna að afþakka allt tilbúið þegar við kaupum inn. Við höfum aðgang að besta hráefni í heimi, við reynum svo bara að skemma það ekki“ segir hann og glottir. „Við viljum helst að ekkert hráefni komi úr pakka eða dollu. Við reynum að gera þetta allt sjálf“. Og þar situr Rúna ekki auðum höndum. Morgunverðarhlaðborðið í Langaholti svignar undan kræsingum á borð við grafin kola, mareneraða lúðu, lummur, rúllupylsu, rúgbrauð, sýróp, pestó, sultur, heitreyktar fiskikæfur og fleira heimagert góðgæti.

Okkar hversdagur er upplifun annarra

„Við höfum það framyfir stórar keðjur í ferðaþjónsutu að vera með okkar eigin karakter. Hér gerum við það sem okkur langar og óvart erum við að bjóða upp á einstaka upplifun í leiðinni. Það sem okkur þykir vera hversadagslegt þarf alls ekki að vera það í augum gesta“ segir Keli. En fyrir stuttu heimsóttu þau erlend hjón sem báðu um að fá að eiga matseðilinn. Þau höfðu þá komið fyrir nokkrum árum, dvalið í Langaholti og orðið svo hrifinn að þau fengu að eiga matseðilinn. Hann var síðan hengdur upp á eldhúsvegg í heimalandinu og nú vildu þau bæta við nýjum. Það segir meira en mörg orð.Keli og Rúna eru dugleg að halda viðburði yfir vetrarmánuðina. Þau halda tónlistarhátíðina Durginn á páskum, villibráðakvöld og bjúgaveislu að hausti og eru nú að endurvekja vinsælu fiskihlaðborðin.“Villibráðakvöldið er samansafn af öllum þeim kvikindum sem mitt fólk nær að drepa í hvert skipti. Svartfugl, gæs, bleikja og fleira. Hreindýr ef einhver úr vinahópnum fer á slíkar veiðar, annars ekki“ segir Keli „ Fiskihlaðborðið er síðan frá mömmu komið, þá var kvöldmaturinn bara afgreiddur svona. Við miklar vinsældir. Núna langar okkur að prófa þetta einu sinni í viku, á laugardögum. Tæknin vinnur líka með okkur, nú getum við beðið fólk um að bóka á netinu áður. Það breytir forsendum og auðveldar allt utanumhald“ segir Keli að lokum.

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page