Anna Dröfn Sigurjónsdóttir var í haust ráðin gæðastjóri hjá Sláturhúsi Vesturlands ehf. í Brákarey í Borgarnesi. Hlutverk gæðastjóra er að fylgja vörunni eftir í gegnum vinnsluferlið. „Við leggjum mikla áherslu á gæði. Línan er hægari hjá okkur en í stóru sláturhúsunum, sem þýðir að ferlið gengur allt hægar og kjötið fær að hanga lengur en almennt, sem gefur okkur meiri gæði. Kjötið fær að kólna alveg áður en það er sett í frost sem er mikið betra fyrir það,“ útskýrir Anna Dröfn.
Bóndinn á vöruna alla leið
Sláturhús Vesturlands er þjónustusláturhús þar sem bændurnir eiga kjötið sjálfir og sjá um að fullvinna það og koma í sölu. „Bændurnir geta sjálfir ákveðið hversu mikið kjötið er unnið hér hjá okkur. Þeir geta tekið skrokkana í heilu, fengið þá grófsagaða, fínsagaða, úrbeinaða og jafnvel hakkað kjöt og innpakkað.“ Anna Dröfn hefur það hlutverk að sjá til þess að ferlið gangi smurt fyrir alla aðila. „Ég sé til þess að öll vinnsla samræmist lögum og reglum og að bæði bóndinn og sláturhúsið fái sitt úr samstarfinu. Þá bóka ég slátranir og set upp plan sem hentar okkur, bændum og kjötniðnaðarmanninum,“ segir Anna Dröfn.
Góð aðsókn hefur verið af stóru svæði
Margir þeirra bænda sem slátra hjá Sláturhúsi Vesturlands ehf. selja sitt kjöt beint frá býli. „Ég held að bændur séu allir sammála því að með slátrun hjá okkur fái þeir besta kjötið. Dilkaslátrun hófst í sláturhúsinu 29. ágúst og hefur að sögn Önnu Drafnar gengið mjög vel en nú sér fyrir endan á henni. Slátrað hefur verið yfir 1600 fjár í haust. „Þá daga sem ekki hefur verið slátrað höfum við verið að vinna kjötið. Núna þegar þessari törn er að ljúka förum við að taka inn folöld og naut til slátrunar og það er bókað allavega fram a jólum svo það er nóg að gera,“ segir Anna Dröfn ánægð.
Fólk vill vita uppruna vörunnar
Aðspurð segir hún bændur sem ætla að selja kjötið sitt sjálfir geta fengið það innpakkað og tilbúið til sölu frá sláturhúsinu. „Það eina sem við gerum ekki er að útvega kaupendur og selja kjötið. En það hafa þó alveg komið kaupendur til okkar í leit að kjöti og við getum þá verið milliliður og komið kaupanda í samband við bónda. Við pökkum kjötinu inn í fallegar sölueiningar og upprunamerkjum allt bóndanum,“ segir Anna Dröfn ög bætir því við að kröfur neytenda um að vita uppruna matvöru hafi aukist. „Fólk vill vita hvað það er að kaupa og hvaðan varan kemur,“ segir hún.
Comments