top of page

Paprikubóndi í Borgarfirði

Viðtal frá 2017

„Ég er búin að eiga þessa stöð frá árinu 2005 en hef verið í grænmetisrækt frá því ég var ungur. Pabbi var í útiræktun svo ég kynntist þessu snemma og hef ég verið að rækta eitt og annað t.d. gulrætur, tómata, gúrku og nú papriku,“ segir Dagur Andrésson garðyrkjubóndi í Reit í Borgarfirði. Í Reit er Dagur með 2.300 fermetra gróðurhús í fjórum einingum og ræktar þar um 18-20% af allri papriku sem framleidd er hér á landi. „Þetta er aðeins breytilegt á milli ára en é hef, með þessa litlu stöð hér, verið að framleiða svona um þetta, 18-20%, en ansi mikið af paprikunni hér á landi er innflutt,“ segir Dagur.Rólegast yfir sumartímann


„Uppskerutíminn er frá apríl fram í nóvember en það er nóg að gera þess á milli. Ég þarf að sótthreinsa húsin á milli tímabila og svo í janúar sái ég fyrir nýjum plöntum. Ég el þær upp á borði undir ljósum svona fram í mars en þá þurfa húsin að vera tilbúin svo ég geti komið plöntunum fyrir,“ segir Dagur aðspurður um hvað garðyrkjubóndi geri þegar ekki er uppskerutími. „Sumarið er í raun rólegasti tíminn hjá mér. Þá er þetta bara rútína, huga að plöntunum og taka af þeim. Svo er ég líka með starfsfólk hjá mér yfir sumarið,“ bætir Dagur við.


Þekking hefur aukist


Aðspurður hvers vegna paprikuræktun sé ekki jafn öflug og gúrku- og tómataræktun hér á landi segist Dagur ekki vita það nákvæmlega, en að það gæti tengst því að paprikuplantan sé viðkvæm. „Ef paprikuplantan verður fyrir áfalli vegna kulda nær hún sér alls ekki alltaf á strik aftur. Það gæti spilað inní. En svo gefa paprikuplönturnar ekki jafn mikið af sér og gúrku- og tómataplönturnar. Það hefur þó lagast mikið svona frá aldamótum. Þá kom hér nýr ráðunautur sem hefur komið með góð ráð fyrir bændur og hefur orðið mikil aukning í framleiðslu síðan. Áður þótti það bara nokkuð gott að ná svona 7-10 kílóum á fermetra en í dag er það örugglega nær 18 kílóum,“ segir Dagur.

Umbúðir um grænmeti hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu og segir Dagur umbúðirnar þjóna tvennum tilgangi. „Pakkningarnar eru m.a. til að upprunamerkja vörurnar. Ef við pökkum þeim ekki og merkjum geta kaupmenn auðveldlega sett erlenda vöru í kassana fyrir þær íslensku og þá er engin leið fyrir neytendur að vita um uppruna vörunnar. Svo hefur þetta gríðarleg áhrif á endingu grænmetisins. Varan endist töluvert betur í góðum pakkningum en í lausu,“ segir Dagur.Recent Posts

See All

Comments


bottom of page