top of page

Sælkeraferðir á Snæfellsnesi

Stefna á að Snæfellsnes verði þekktur áfangastaður fyrir sælkera- grein frá 2019


Svæðisgarðurinn Snæfellsnes er að fara af stað með nýtt verkefni sem nefnist „Sælkeraferðir á Snæfellsnesi.“ Hefur það hlotið styrk frá Matarauði Íslands. Verkefnið er nú statt á þeim stað að það hefur farið í gegnum undirbúnings- og kynningarfasa og segir Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðs Snæfellsness, að matarklasi um verkefnið fari formlega af stað nú í nóvember. Elín Guðnadóttir hefur verið ráðin í þrjátíu prósent starfshlutfall sem verkefnisstjóri.



Byggir á góðu samstarfi


En hver er Elín Guðnadóttir? Hún segist hafa alist upp í Grundarfirði og sé því vel kunn svæðinu. „Ég hef hins vegar í millitíðinni búið á hinum ýmsu stöðum; Akureyri, Yorkshire í Englandi, London og Reykjavík, svo dæmi séu tekin. Ég er landfræðingur í grunninn, en er með meistaragráðu í umhverfis- og þróunarfræðum og aðra meistaragráðu í matvælastefnumótun. Ég hef starfað við skipulagsmál, íbúalýðræði, stefnumótun í byggðamálum og núna matvælastefnumótun,“ segir Elín. Hún kveðst hafa brennandi áhuga á mat, byggðaþróun og finnst mjög gaman að vinna með fólki. „Ég trúi því að bestum árangri verði náð með góðu samstarfi og þetta matarverkefni mun byggja á því,“ segir hún.


Undirstrika gæðakröfur svæðisins


Meginmarkmið verkefnisins Sælkeraferðir á Snæfellsnesi snýst um að hanna matarleiðir sem hægt er að aka eftir og matarstíga sem hægt verður að fylgja eftir gangandi eða hjólandi. Nú mun fara í gang svokölluð gatgreining, sem væntanlega mun leiða í ljós að einhverjar vörur eða þjónustu vantar á svæðið til að uppfylla þarfir eða væntingar gesta. Verkefnið gæti því leitt af sér ný tækifæri og að ný fyrirtæki verði til. „Sælkeraferðir verða bæði í dreifbýli og í þéttbýliskjörnum. Þannig geta gestir og íbúar hér á svæðinu notið matarmenningar Snæfellsness á aðgengilegan hátt. Áhersla verður lögð á gæða upplifun þar sem fólk fær að kynnast umhverfi og auðlindum Snæfellsness og hvernig matarmenning og hefðir hafa skapast út frá þeim,“ segir Elín.


Draga fram sérstöðu svæðisins


Aðspurð um sérstöðu snæfellsks matar segir Elín: „Matur er okkar mál og í svæðisskipulagi Snæfellsness er hreinlega tekið fram að hér verði aldrei mengandi stóriðja sem varpað gæti rýrð á hreinleika svæðisins. Á Snæfellsnesi eru öflug útgerðarfyrirtæki og fiskvinnslur, ár og vötn full af ferskvatnsfiski og fjölbreyttur landbúnaður. Stór hluti verkefnisins verður að kynna afurðir af svæðinu. Snæfellsnes hefur hlotið alþjóðlega umhverfisvottun í tíu ár frá Earth Check. Það undirstrikar vel þær gæðakröfur sem íbúar vinna eftir og umgengni við auðlindir. Þá segja Snæfellingar sögur og það verður einn hluti af verkefninu að draga fram sérstöðu og sögu matarauðs Snæfellsness og gæða hráefnisins.“


Sælkeraferðir einungis byrjunin


Um framtíðarsýnina fyrir Matarauð Snæfellsness segir Elín að nú sé ferðaþjónustuaðilum, til dæmis veitingastöðum og matvælaframleiðendum, boðið að koma til samstarfs um verkefnið. „Þetta samstarf verður svo grundvöllur að matarklasa samstarfi á Snæfellsnesi. Framtíðarsýnin er að matarklasinn verði vettvangur fyrir samstarf um fjölbreytt matartengd verkefni. Undirbúningsfundur er í bígerð síðar í þessum mánuði og verður auglýstur á næstunni,“ segir Elín. „Við sjáum fyrir okkur að Snæfellsnes verði þekktur áfangastaður fyrir sælkera og að hér geti fólk og íbúar notið þeirra krása sem eru í boði. Ég vil undirstrika að verkefnið Sælkeraferðir er bara byrjunin. Við erum með fullt af hugmyndum um verkefni sem snúa að matarmenningu, aukinni verðmætasköpun og hvernig hægt væri að auka nærsamfélagsneyslu á mat af Snæfellsnesi,“ segir Elín.

Í lokin er Elín spurð hver uppáhalds matur hennar sjálfrar er: „Hafragrautur með eplum, harðfiskur með smjöri og fiskibollur að hætti mömmu. Annars borða ég flestallan mat,“ segir hún að endingu.

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page