top of page

Sjálfbærir sælkerar

Í heimsókn hjá Brynju og Jóhanni á Hraunsnefi 2019


Á Hraunsnefi í Norðurárdal hafa þau Brynja Brynjarsdóttir og Jóhann Harðarson komið sér vel fyrir. Þau keyptu jörðina árið 2004 með það að markmiði að opna hótel og veitingastað og tóku á móti fyrstu gestum í júní 2005. Tíu árum síðar var veitingastaðurinn færður í stærra húsnæði og hótelið stækkað um fimm herbergi. Einu dýrin á bænum í upphafi voru heimilishundarnir en í dag er blómlegur búskapur á Hraunsnefi með nautgripum, svínum, kindum og hænsnum. Áhersla veitingastaðarins felst í kjötvörum beint frá býli en brauðið er einnig heimagert og grænmetið eftir fremsta megni úr héraði.

„Eftir hrun þurftum við að hugsa öðruvísi og endurskoða okkar forgangsröðun og fórum að skoða hvernig við gætum nýtt þetta landsvæði sem jörðinni fylgdi og hvar væru tækifæri til að spara í rekstrinum. Við byrjuðum að brenna pappa í huggulegum arni sem fólk getur sest við úti og hlýjað sér. Þennan pappa hefði annars þurft að keyra í burtu og í því fólst sparnaður við soprhirðugjöld,“ segir Jóhann.Fyrst komu grísir á Hraunsnef og fengu þeir matarafganga sem sparaði einnig sorphirðugjöldin og vöktu þeir auk þess mikla lukku gesta. „Við vorum orðin svo samfélagslega þenkjandi að við hirtum matarafganga á Bifröst einnig og allir voru ánægðir með þetta því ekki var verið að henda mat heldur var hægt að nýta hann betur,“ segir Brynja en síðar var þeim bannað að gefa dýrum matarafganga sem kæmu úr eldhúsinu svo því var hætt.Nokkrar kindur voru á Hraunsnefi, aðallega fyrir myndatökur og vöktu þær gríðarlega lukku líkt og svínin. Kveikjan að nautgripabúskapnum var svo þegar kálfar fengust að láni á Hraunsnef til þess að sýna gestum. „Í dag erum við orðin sjálfbær hvað varðar nautakjötið og höfum verið það í dágóðan tíma,“ segir Jóhann en í dag eru á búinu um 30 gripir á fæti í hvert sinn.Vel hefur tekist að nýta hvern vöðva sem kemur af hverjum skrokki og er það aðallega því að þakka að kjötið er allt verkað og unnið heima eftir kröfum og þörfum veitingastaðarins. Góðu bitarnir verða fleiri og ekkert kjöt endar í ruslinu. „Ef við misreiknum okkur eitthvað og eigum ekki nóg nautakjöt þá höfum við brugðið á það ráð að taka það frekar út að matseðli tímabundið í stað þess kaupa inn úr búðinni. Gestirnir okkar eru farnir að þekkja gæðin og það er okkar stærsta viðurkenning,“ segir Brynja en mikil natni fer í uppvöxt nautgripanna sem fá að ganga frjálsir allt sitt líf, líkt og grísirnir og kindurnar. Aðspurð hvort þeim finnist sjálfræði dýranna skipta máli, svarar Brynja að lokum: „Það hefur áhrif á gæðin, vöðvarnir eru á meiri hreyfingu og þeir fá meira af grænu grasi. Þannig viljum við hafa það, dýrin eru glöð, við vitum það og gestirnir okkar líka.“Recent Posts

See All

Comments


bottom of page