top of page

Tækifæri felast í matarauði Vesturlands

Grein frá 2017

Þegar horft er yfir Vesturland þá blasir við að matarauðurinn er einn af styrkleikum og tækifærum landshlutans. Vesturland skartar fjölbreyttri náttúru og er ríkt af auðlindum bæði til sjós og lands, sem hægt er að nýta til sjálfbærrar matvælaframleiðslu. Þar eru grösugir dalir og búsældarlegar sveitir sem henta vel til ræktunar, gjöfulir firðir, flóar og fiskimið, ár og vötn með laxi og silungi, víðáttumikil náttúra með berjum og plöntum sem hægt er að vinna úr og áfram má telja. Einnig er nægt hreint vatn og svæði með miklum jarðvarma og grænni orku sem nýta má til ræktunar og vöruþróunar. Segja má að við búum við alsnægtir. Því hefur verið mikil umræða á Vesturlandi, líkt og í öðrum landshlutum, um að efla matvælaframleiðslu.

Á fjölmennu íbúaþingi í tengslum við gerð sóknaráætlunar Vesturlands kom fram sterkur vilji til að farið yrði í sérstakt verkefni um eflingu matvælaframleiðslu í héraði. Í framhaldi af því er nú unnið að áhersluverkefni sóknaráætlunar sem kallast Matarauður Vesturlands.

Í tengslum við það verkefni hefur verið farið víða um landshlutann til að sjá, skoða og heyra hvað brennur á þeim sem eru að vinna með matarauðinn. Í þessari vinnu hefur verið rætt við margt gott fólk, fræðst, spjallað og skipst á skoðunum varðandi sérstöðu, styrkleika, veikleika og tækifæri tengd matarauði Vesturlands. Þessi vinna sem af er, hefur kallað fram margar hugmyndir, vangaveltur og góða umræðu sem vert er að velta fyrir sér, meðal annars um framleiðslu og sölu á landbúnaðarvörum, dreifingarleiðir, afhendingaröryggi og fleira.Matur skiptir okkur máli

Áhugi almennings á mat virðist vera vaxandi. Fólk hugsar og talar um mat, mataruppskriftir, strauma og stefnur í matargerð og næringu og allir hafa skoðun á málinu. Matarþættir í sjónvarpi eru vinsælir og til eru sjónvarpsstöðvar sem sýna aðeins matartengt efni. Fólk úr ýmsum áttum markar sér sess á samskiptamiðlum með matarumfjöllun, auk þess sem matreiðslu-, matarupplifunar- og næringarnámskeið njóta mikilla vinsælda og gróska er í útgáfa bóka og blaða sem fjalla um mat.

Almenningur virðist líka vera meðvitaður um heilbrigði og heilsusamlegan lífsstíl, þar sem lagt er upp með að hreinleiki og gæði matvöru skipti miklu máli. Þá eru sífellt fleiri sem hugsa og tala um umhverfis- og dýravelferð, mengun, kolefnisjöfnuð, sótspor, sanngjörn viðskipti og rekjanleika vöru. Þeir neytendur sem tileinka sér þessa lífssýn vilja væntanlega hafa allt þetta í huga þegar þeir velja mat á diskinn sinn. Sjálfbærni er líka hugmyndafræði sem er hátt skrifuð í ræðu og riti í íslensku þjóðfélagi, þar sem allir virðast sammála um að sjálfbærni skuli höfð að leiðarljósi.

Ef tekið er mið af þessari umræðu, stefnu og straumum í þjóðfélaginu, þá er hægt að draga þá ályktun að meðal almennings séu margir meðvitaðir neytendur sem vilja aðeins fá matvöru sem framleidd er við aðstæður þar sem ofangreind gildi eru í hávegum höfð. Flestir íslenskir bændur leggja líka mikið upp úr að framleiða landbúnaðarvöru með þessa þætti að leiðarljósi og vinna samkvæmt gæðakerfum til að geta boðið hágæða matvöru á íslenskum matvörumarkaði.


Landbúnaður er líka matvælaframleiðsla

Í umræðu um matarauð Vesturlands hafa komið upp ýmsar vangaveltur varðandi þróun landbúnaðar og byggðaþróun í sveitum landsins. Rætt hefur verið um hvernig búin hafi þurft að stækka og eflast til að standa undir hagræðingarkröfu og matvælaþörf á Íslandi. En fólk er líka sammála um að samhliða þeirri þróun hafi einnig verið vaxandi markaður fyrir sölu á landbúnaðarvörum beint frá býli og á matarmörkuðum. Margir tala um að mikilvægt sé fyrir íslenskan landbúnað, byggðaþróun og matvælaframleiðslu á Íslandi að tryggja fjölbreytta landbúnaðarstarfsemi í sveitum landsins. Það þurfi bæði öflug stór fjölskyldubú sem falla að þeirri menningu og ímynd sem íslenskur landbúnaður byggir á, til að standa undir þeirri magnframleiðslu sem þarf fyrir dagvörumarkað á Íslandi. En einnig sé mjög mikilvægt að hafa matvælaframleiðslu þar sem bændur selja bæði sérvörur, gæðavottaða og rekjanlega landbúnaðarvörur beint frá býli og á matarmörkuðum. Mikilvægt sé að hvorutveggja geti verið arðvænlegur rekstur fyrir þá aðila sem þessa framleiðslu stunda í sveitum landsins.

Mál manna hefur verið að það þurfi vissulega að vera vakandi fyrir hagræðingu sem getur falist í tækni- og vélvæðingu á fjölskyldubúum og eflingu afurðastöðva. En það sé ekki síður mikilvægt fyrir alla að viðhalda og standa vörð um íslenska búfjárstofna, verkþekkingu og þá sérstöðu sem fæst með gæðavottuðum vörum, menningararfi, matarhandverki og svæðistengdri matvælaframleiðslu í héraði. Þessir þættir séu allir mjög dýrmætir, bæði fyrir þjóðarsálina og í markaðslegu tilliti fyrir bæði landbúnað og ferðaþjónustu. Með því að leggja rækt við og stuðla að uppbyggingu og framþróun á fjölbreyttum búskaparháttum sé hægt að efla byggð í sveitum landsins og auðga matvælaframleiðslu á Íslandi. Til að hægt sé að viðhalda byggð og halda uppi þeirri þjónustu sem þarf að vera til staðar fyrir íbúa, þá er mikilvægt að stuðla að fjölbreyttu byggðamynstri og atvinnuuppbyggingu sem laði að sér fólk til búsetu í sveitunum. Með öðrum orðum, nýsköpun og fjölbreytileiki í landbúnaði er mikilvægur til að efla inniviði samfélagsins. En á sama tíma verður að auka virðingu fyrir og tækifæri til að stunda svæðisbundið matarhandverk sem einkennist af fjölbreytni, ferskleika og gæðum.Skóli lífs og lands

Oft hefur komið upp í umræðuna mikilvægi Landbúnaðarháskóla Íslands – háskóla lífs og lands, varðandi þróun búskaparhátta og byggðaþróun landsbyggðanna. Fólk hefur velt fyrir sér hvort það væri ekki meðal annarra, hluverk Landbúnaðarháskóla Íslands að byggja upp nám sem styður við þessa þróun landbúnaðar á Íslandi. Það gæti verið nám sem lýtur að nýsköpun, vöruþróun og fullvinnslu matvæla til að koma til móts við kröfur og þarfir markaðar og neytenda. Sóknarfæri gætu falist í því ef fólki biðist tækifæri á að efla þekkingu sína í heildstæðu námi, þar sem unnið væri með verkferla sem lúta að framleiðslu matvöru alla leið frá haga í maga.

Bændur þurfa ekki allir að vera eins og þess vegna er mjög mikilvægt að það nám sem ætlað er bændum til undirbúnings fyrir sína starfsemi, sé fjölþætt og bjóði upp á val um hvaða áherslur þeir velja í sinni framleiðslu. Einnig sé mikilvægt að hlúð sé vel að öllu námi sem lítur að úrvinnslu og fullvinnslu landbúnaðarafurða, þannig að fólk eigi þess kost að mennta sig til þeirra starfa við eftirsóknarverðar aðstæður og með jákvæða framtíðarsýn fyrir sinn starfsferil. Margir hafa velt fyrir sér hvort ekki liggi tækifæri í því fyrir íslenskt samfélag að Landbúnaðarháskólinn snúi vörn í sókn og bæti matvælanámi við það nám og rannsóknarstarf sem þar fer fram og lýtur að náttúruvísindum, auðlinda- og umhverfisfræðum og landnýtingu. Með því væri hægt að byggja upp þverfaglegt nám sem lýtur að búrekstri og verkháttum sem stuðla að varðveislu á verkkunnáttu, nýsköpun og vöruþróun. Slíkt nám gæti hæglega boðið upp á innlent og erlent samstarf háskóla og snert margar fræðigreinar. Það má líka sjá fyrir sér að þeir sem ljúka slíku námi geti valið sér að verða bændur sem fullvinna sína vöru og selja beint frá býli, en þeir hefðu líka þekkingu til að taka að sér ýmis störf í nýsköpun og vöruþróun, tengd ferðaþjónustu, markaðssetningu, geymslu og dreifingu matvæla og áfram mætti telja. Þetta væri þekkingarmiðlun sem kennir fólki að vinna með þá sérstöðu og auðlindir sem aðgangur er að á hverjum stað. Þannig gæti fólk öðlast þekkingu og færni varðandi vöruþróun sem byggir á samþættingu náttúruauðs, menningarauðs, matarauðs og mannauðs, sem eru einmitt þeir þættir sem gefa okkur tækifæri til vöru- og byggðaþróunar sem byggir á sérstöðu hvers svæðis. Þetta nám gæti tekið á öllum ferlum sem varða landnýtingu og matvælaframleiðslu – frá haga í maga.Matarauður Vesturlands

Vesturland er búsældarlegt landbúnaðarhérað, þar sem landkostir eru vel fallnir bæði til ræktunar og beitar og náttúrufar gefur tækifæri til sjálfbærrar nýtingar á fjölbreyttum auðlindum til matvælaframleiðslu. Auk þess sem vegalengdin að fjölmennasta markaðssvæði Íslands er allstaðar innan við 250 km. Miðað við þau gildi sem áður hafa verið rakin hér og varða lífssýn fólks sem er meðvitað um velferð lífs og lands, og möguleikana á framleiðsu á gæðamatvöru sem getur fallið að þeim gildum, þá ætti Vesturland að henta mjög vel til matvælaframleiðslu fyrir íslenskan matvælamarkað. Því er áhugavert að fylgjast áfram með því hvort neytendur eru sjálfum sér samkvæmir varðandi lífssýn og gildi sem lúta að umhverfismálum og matvælaframleiðslu, og hvernig íslensk þjóð og Vestlendingar velja að nýta þau tækifæri sem felast í matarauði Vesturlands.


Margrét Björk Björnsdóttir og

Signý Óskarsdóttir.

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page