top of page

Tískan á það til að fara í hringi og nú er tími matarhandverksins

Grein frá 2017

Sauðamjólk hefur verið nýtt til manneldis um þúsundir ára, allt aftur á bronsöld. Vitnisburður þess eru fornminjar sem fundist hafa víða í Evrópu, t.d. í hellum á Spáni og Frakklandi.

Einnig á Íslandi var sauðamjólk notuð og var raunar undirstöðufæða landsmanna allar aldir frá landnámi og fram á 20. öld. Vitað er að forðum var í seljum gerður sauðaostur ásamt sauðasmjöri og sauðaskyri. Getgátur eru um að norrænir menn hafi aðallega gert sýrða osta en því miður eru ekki til heimildir um aðferðir við ostagerð í fornöld.

Ekki er hægt að fjalla um íslenska sauðaostagerð án þess að minnast á Ólafsdal en Torfi Bjarnason og Guðlaug Zakaríasdóttir komu upp góðri aðstöðu til ostagerðar sem löngum var stunduð þar. Ragnheiður dóttir þeirra og síðar skólastjórafrú á Hvanneyri fór til Danmerkur, á hinn fræga búgarð Havarthigaard að læra að vinna úr mjólk og lagði sig sérstaklega eftir gerð dýrari osta á borð við roquefort úr sauðamjólk og gorgonzola úr kúamjólk. Hún hvatti til roquefortostagerðar í Ólafsdal og eftir að heim kom nýtti hún lærdóm sinn til kennslu m.a á Hvanneyri. Ostarnir frá Ólafsdal voru seldir í Reykjavík og víðar.

Vegna breytinga í búháttum lögðust sauðamjaltir af á síðustu öld. Þótti hentugra og hagkvæmara hjá ört stækkandi þjóð að nýta kýrnar, loksins þegar menn höfðu efni og góðar aðstæður til að halda þær, eftirspurnin eftir mjólk var vaxandi og kýr mjólka vel.

En tækninni fleygir fram á upplýsingaöld, jafnt í búskap sem verslun og viðskiptum. Nýtt landslag blasir við í landbúnaðarmálum líkt og á öðrum sviðum þjóðlífsins.

Með nýjum kynslóðum breytist matarmenningin og tískan á til að fara í hringi. Merkilegt nokk gætir vaxandi áhuga fyrir sauðamjólkurafurðum á Vesturlöndum og eins og fyrir stundarfrið frá hávaðanum í neyslusamfélaginu sækja menn í betri tengingu við framleiðendur. Tími handverksins er kominn aftur! Tími matarhandverksins og hann krefst þess ekki að menn sleppi mjaltavélunum, sem er ágætt fyrir sauðfjábændur á Vesturlandi, því miðað við tölur Byggðastofnunar um haustásetning 2016 eru 81.356 fjár sem flest ætti að drífa í sel næsta sumar.


Bryndís Geirsdóttir



Recent Posts

See All

Comments


bottom of page