top of page

borðað með bónda

Viðtal frá 2019

Bjarteyjarsandur er fjölskyldufyrirtæki í Hvalfirði þar sem stunduð er fjölþætt starfsemi m.a. sauðfjárrækt, verktakastarfsemi, ferðaþjónusta og sitthvað fleira. Bjarteyjarsandur hefur verið í ábúð og eigu sömu fjölskyldu síðan 1887 og því má segja að grunnurinn sé nokkuð traustur og starfsemin í dag byggi á gömlum merg. Í dag búa þrjár kynslóðir saman á torfunni, tíu manns í það heila.


Undanfarin tvö ár hafa bændur á Bjarteyjarsandi verið að leggja áherslu á og þróað matarupplifun heima á bæ. Þeir hafa sótt námskeið, fengið til sín sérfræðinga eins og kokka, þjóna og matgæðinga og einnig farið sjálfir í heimsóknir á staði sem þeim finnst vera að gera góða hluti þegar kemur að íslensku hráefni, upplifun og meðhöndlun matvæla.



„Þessi vinna hefur leitt okkur á ótrúlegustu brautir,“ segir Arnheiður. „Meðal þess sem við höfum gert með gestum okkar er kampavíns- og krabbaveisla í heitum fjörupotti, þaragrill og varðeldur, sláturgerð fyrir New York Times og matreiðslunámskeið fyrir vellauðuga Indverja svo dæmi séu tekin. Ég man eftir því í eitt skiptið, að þá hafði samband ein af þeim ferðaskrifstofum sem við vinnum með og spurði hvort það væri möguleiki að taka á móti gestum, elda með þeim þ.e.a.s. leyfa þeim að taka þátt í eldamennskunni og svo myndum við öll borða saman. Þeim langaði nefnilega svo að borða með bóndanum og fjölskyldunni hans! Þar sem við erum ekkert sérstaklega mikið fyrir að segja nei, þá slóum við til og úr varð hin ótrúlegasta skemmtun,“ segir Arnheiður brosandi og heldur áfram:


„Við höfum áhuga á því að halda áfram á þessari braut, þ.e. að vinna með hráefnið okkar sem við teljum af bestu gæðum og það er nú bara þannig að íslenska lambakjötið hefur ótrúlega sérstöðu sem við erum stolt af. Við sjáum það ennþá betur þegar við fáum gesti alls staðar af úr heiminum hvað við erum með einstakt hráefni. Það hefur verið gefandi lærdómsferli að feta inn á þessa braut. Við kunnum jú ágætlega með sauðfé að fara, en þessi fullvinnsla, frá haga í maga, hefur opnað augu okkar enn frekar fyrir tækifærunum og möguleikunum. Það að fá gesti í heimsókn til okkar, kynnast þeim og fræða þá og fræðast af þeim, er skemmtileg viðbót við það sem fyrir er hér á Bjarteyjarsandi. Það er kannski bara spurning þegar þetta er orðið vinsælasta söluvaran okkar, þ.e. borðað með bónda, hvort álagið á Guðmund bónda verði of mikið og við þurfum að leita okkur að staðgengli í verkefnið,“ segir Arnheiður að lokum, sposk á svip.



Recent Posts

See All
bottom of page