top of page

„Það geta allir eldað ef þeim er bara kennt það“

Viðtal frá 2017

Rúnar Marvinsson tók vel á móti blaðamanni á heimili sínu á Hellissandi á dögunum. Rúnar var ungur þegar hann byrjaði að grúska í matargerð og segir að í dag sé fátt, ef eitthvað, sem gæti komið honum á óvart í þeim efnum. „Amma mín var kokkur í mötuneyti fyrir verkamenn og hún tók mig stundum með sér í vinnuna. Þá byrjaði ég svona að væflast um eldhúsið og umgangast áhöldin og matinn,“ segir Rúnar. „Mér finnst við ekki nógu dugleg að kenna börnum í dag að elda og bjarga sér í matargerð. Við erum of dugleg við að kaupa tilbúinn mat, fullan af aukaefnum og rusli, til að gefa þeim. Fólk ætti frekar að gefa sér tíma í að útbúa matinn sjálft og þá læra börnin það líka. Það geta allir eldað ef þeim er bara kennt það. Allir eru bara of uppteknir við að vinna, til að afla meiri peninga en þörf er á og engin hefur tíma til að hugsa um hvað er látið ofan í sig. Það endar með að fólk verði orðið heilsulaust en með nóg af peningum og óþarfa hlutum,“ segir Rúnar sem án efa er einn þekktasti kokkur landsins og þá ekki síst fyrir það þor sem hann hefur sýnt með að feta ótroðnar slóðir.Smærri sláturhús og vinnslur


Lambakjötið er ofarlega í huga Rúnars um þessar mundir og telur hann að nú sé tími til að taka skref afturábak hvað varðar framleiðslu og sölu á því. „Nú eru allir með í maganum yfir framleiðslu lambakjötsins og kjaraskerðingu bænda. Ég held að við gætum stórlega lagað þetta ástand með því að breyta aðeins til,“ segir Rúnar og bætir því við að hann telji það vera framtíðina að hafa fleiri smærri sláturhús í stað þessara stóru. „Hvað er eðlilegt við að senda féð á milli landshluta til slátrunar? Ég held að það þurfi bara að taka skref aftur hvað þetta varðar, stokka þetta allt og gefa upp á nýtt. Jafnvel að bændur komi bara sjálfir upp sinni eigin sláturaðstöðu og þurfi ekki að borga hálfan skrokk til láta slátra á „réttum stað“ og láta svo geyma skrokkinn og geyma.“


Vill að við nýtum lambakjötið betur


„Það er svo mikil tímaskekkja hvernig við erum að meðhöndla lambakjötið, við gætum nýtt það svo mikið betur. Ég get bara ekki skilið að á sama tíma og verið er að tala um offramleiðslu á lambakjötinu á Íslandi erum við að flytja inn matvöru, þar á meðal kjöt, í stórum stíl. Af hverju ætli maður sjái t.d. aldrei lambahakk í verslunum en þú getur keypt innflutt nautahakk,“ spyr hann. Rúnar telur það mun vænlegra að vinna lambaskrokkana meira og nýta þá betur, jafnvel úrbeina skrokkana í heilu lagi. „Við erum alltaf að selja lambakjötið niðursagað en fólk kærir sig ekki um að kaupa bita sem eru lítið annað en fita og bein. Ef við myndum úrbeina og fituhreinsa kjötið betur gætum við gert það mun söluvænna. Fólk myndi mikið frekar vilja kaupa vöðvana í heilu lagi, annað mætti svo hakka. Beinin mætti líka selja sér, það er nefnilega vel hægt að nýta þau líka, t.d. í soð. Svo gætu líka allir lært að úrbeina sjálfir.“


Ofbýður allar þessar umbúðir


„Það er ekki nóg með hversu fáránlegt það er að við séum að flytja inn allt þetta óþarfa kjöt, heldur eru það líka allar þessar tilbúnu matvörur og allar umbúðirnar sem þær koma í. Eitt það einfaldasta sem hægt er að búa til er pizza en samt er fólk að kaupa tilbúnar frosnar pizzur sem eru fullar af aukaefnum og rusli. Og í þokkabót eru þessar tilbúnu vörur gjarnan innfluttar og pakkaðar í ofboðslegt magn af óumhverfisvænum umbúðum,“ segir Rúnar og bætir því við að við þurfum aðeins að fara að hugsa um allar umbúðirnar sem við erum að nota. „Væri ekki nær að taka sér örfáar mínútur í að hnoða í eina pizzu sem þú veist nákvæmlega hvað inniheldur frekar en að kaupa þetta rusl í myndskreyttum pappakassa frá Kína? Krakkarnir væru auk þess alltaf að búa sjálf til pizzu.“Heiðarlegri gagnvart náttúrunni


Rúnar hefur, eins og svo margir, miklar áhyggjur af öllu plastinu sem við notum og vonast til að fólk taki við sér og hugsi betur um náttúruna. „Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé okkur hollt. Nú eru plastagnir farnar að finnast í drykkjarvatni og ég trúi ekki öðru en það sé slæmt fyrir heilsuna okkar, og dýranna,“ segir Rúnar. „Mér finnst vægast sagt skrítið að fólk sé að elda matinn sinn í plasti, það getur varla verið gott fyrir okkur. Þetta plast er fullt af óþverra sem smitast yfir í matinn okkar. Við þurfum aðeins að fara að verða heiðarlegri, bæði gagnvart náttúrunni og okkar eigin heilsu og lífi, kynnast börnunum okkar og elda sjálf.“


Tíska í matargerð


Aðspurður hvað hafi komið honum mest á óvart varðandi matargerð í gegnum tíðina segir Rúnar það vera fátt. Hann segir matargerð ganga í tískubylgjum. „Einn daginn er einhver matur mjög vinsæll en þann næsta vill kannski engin sjá hann. Fyrir ekki svo mörgum árum vildi fólk ekki sjá þorsk og allir borðuðu bara ýsu. Nú er alveg öfugt farið, ýsan er orðin annars flokks en þorskurinn þykir hinn fínasti matur og allir eru alltaf að borða þorskhnakka,“ segir Rúnar og hlær.

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page