top of page

„Þetta er það sem vantaði í Hólminn“

Viðtal frá 2019

Hjónin Hreiðar Már Jóhannesson og Hulda Hildibrandsdóttir hafa opnað barinn Skipperinn að Þvervegi 2 í Stykkishólmi. Barinn var opnaður á laugardaginn, 9. nóvember síðastliðinn. Hreiðar segir að um algera skyndiákvörðun hafi verið að ræða hjá þeim hjónum. „Það var annað hvort að ég færi aftur á sjóinn eða myndi búa mér til heilsársvinnu,“ segir Hreiðar í samtali við Skessuhorn, en þau reka einnig ferðaþjónustufyrirtækið Ocean Adventures og starfa bæði þar á sumrin. „Við heyrðum af því að strákarnir í Skúrnum, sem var áður í þessu húsi, væru að færa sig um set. Við vorum bara uppi í sófa heima og hentum því fram í gríni hvort við ættum ekki að heyra í eiganda hússins og athuga hvort við gætum fengið það leigt til að reka bar. Ég held að það hafi liðið tveir tímar frá því við vorum að grínast með þetta þangað til við vorum komin með húsið á leigu, án þessa að vita neitt almennilega hvað við værum að fara að gera,“ segir Hreiðar léttur í bragði. „Það eru fimm vikur síðan og við erum búin að opna,“ bætir hann við.Hreiðar segir að opið verði á Skippernum alla virka daga frá 18:00 til 1:00 en um helgar frá því fyrir hádegi til 3:00 um nóttina. Eldhúsið verði opið til 10:00 á kvöldin, bæði virka daga og um helgar. Á matseðlinum verða fiskur og franskar, kjúklingasalat og svínarif og boltinn í beinni á skjánum þegar svo ber undir. „Síðan þegar við verðum komin aflmennilega af stað ætlum við að bæta við nautalokum og humarlokum,“ segir Hreiðar.


Hann segir viðtökurnar hafa verið góðar. „Við auglýstum ekkert að við værum að fara að opna, vildum ekki fá einhverja bombu því við vissum ekki hvað væri að fara að gerast. En samt var nánast fullt hús til kl. 3:00 um nóttina,“ segir hann. „Þetta er það sem vantaði í Hólminn. Við höfum tekið eftir því eins og aðrir í ferðaþjónustunni og bæjarbúar að það hefur vantað bar sem er opinn lengur en níu á kvöldin sem er hægt að vísa fólki á,“ segir hann og bætir því við að reksturinn leggist vel í þau. „Bæjarbúar taka líka rosalega vel í þetta framtak og þeir sem hafa litið við eru mjög jákvæðir og ánægðir með að einhver hafi látið verða af því að opna bar. Nú geta allir sem eru að leita sér að rólegum stað til að setjast niður á kvöldin og fá sér bjór eða vínglas komið til okkar,“ segir Hreiðar Már að endingu.

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page