top of page

Ferðaþjónusta sérhæfð í matarferðum um Vesturland

Viðtal frá 2017

Crisscross er nýtt ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í matarferðum um Vesturland. Bændur og smáframleiðendur eru heimsóttir og ferðalöngum gefst tækifæri til að kynnast bústörfum og gæða sér á ljúffengum matarhandverki beint frá býli. Á bak við fyrirtækið stendur Sigríður Anna Ásgeirsdóttir. Hún er sjálf matarfrumkvöðull, en hún framleiðir Íslandus mysudrykk og Íslandus kex úr mysu frá Rjómabúinu á Erpsstöðum. Í drykkinn blandar hún bláberja- og krækiberjasafa og seyði af villtum jurtum við mysuna en kexið inniheldur auk mysu ýmis holl fræ og fjallagrasahratið úr drykkjarframleiðslunni.

“Mig langaði að setja þessa hollu vöru, mysuna, í nýjan búning sem hentaði vel nútíma matarsmekk og kæmi í veg fyrir matarsóun,” segir Sigríður Anna. Í dag eru Íslandus vörurnar seldar í sérvöruverslunum víðsvegar um landið og ekki síst sem matarminjagripur til erlendra ferðamanna, enda vinsælt að taka heim til sín séríslenskar vörur til minningar um ferðina hingað til lands. Í gegnum þátttöku á matarmörkuðum kynntist ég mörgum frábærum framleiðendum sem leggja metnað í að koma hreinum og góðum afurðum sem framleiddar eru á vandaðan og vistvænan hátt á framfæri. Það var þá sem hugmyndin fæddist að blanda saman þessum tveimur ástríðum mínum, matarframleiðslu og ferðalögum,” segir Sigríður Anna, en hún hefur einnig langa reynslu sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn.



Stórkostleg matarkista


Ferðir Crisscross byggjast á samvinnu við heimamenn og þeirra framlag. Gestirnir miðla af lífi sínu og eigin reynslu og eykur það mjög gildi ferðarinnar fyrir erlenda ferðamenn. Crisscross hefur að leiðarljósi að fara ótroðnar slóðir í sínum ferðum og það var ekki að ástæðulausu að Vesturland varð fyrir valinu sem áfangastaður. „Þar er mikil náttúrufegurð og hægt að velja úr mörgum náttúruperlum sem fáir leggja leið sína um. Einnig er Vesturlandið allt stórkostleg matarkista og mikil gróska í matarhandverki og nýtingu á staðbundnum hráefnum. Það er einmitt þetta sem ferðalangar með mataráhuga eru að leita að.” Þessi gerð ferðamennsku fer sannarlega ört stækkandi því víða um heim nýtur matarferðamennska mikilla vinsælda þótt hún sé ennþá fremur ný af nálinni hérlendis.



Samvinna er allra hagur


Fram til þessa hafa ferðirnar hjá Crisscross mestmegnis verið dagsferðir um Hvalfjörð og Borgarfjörð. Fyrirtækið hyggur á lengri ferðir þar sem farið verður um fleiri svæði á nokkrum dögum. „Draumurinn er að hafa þematengdar ferðir þar sem lífinu til sjávar og til sveita er gert skil með því að heimsækja einn daginn bændur í uppsveitum Borgarfjarðar eða í Dölunum og næsta dag matarframleiðendur við sjávarsíðuna t.d. á Snæfellsnesi. Það er nefnilega hægt að segja svo margar sögur af landi og þjóð í gegnum mat og matarhefðir. Þetta er klárlega það sem ferðamaðurinn sem kemur til okkar hefur áhuga á,” segir Sigríður Anna. Hún telur jafnframt mikilvægt að samvinna við heimamenn sé með allra besta móti og það gerist þegar allir hagnast á samvinnunni. „Hingað til höfum við verið mjög heppin með samstarfsaðila og það væri mjög gaman að heyra frá fleiri aðilum á Vesturlandi sem hefðu áhuga á að taka þátt í þessu með okkur. Ekki hika við að hafa samband,“ segir Sigríður Anna.


Recent Posts

See All
bottom of page