top of page

Hreinlæti er lykillinn að farsælli matarframleiðslu

Rætt við Helga Helgason framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Vesturlands 2019


Þegar fólk hyggst hefja framleiðslu á matvælum er ýmislegt sem þarf að hafa í huga. Fyrst og fremst er mikilvægt að vera vel upplýstur um þær reglur sem gilda um framleiðslu matvæla. Af því tilefni settist blaðamaður Skessuhorns niður með Helga Helgasyni, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, og spurði hann hvað það væri sem fólk þyrft að hafa í huga áður en það hefur matvælaframleiðslu. Helgi hefur í áratugi sinnt þessum mikilvæga málaflokki á Vesturlandi og deilir hér ýmsu sem gott er að hafa í huga.




Framleiðandinn er alltaf ábyrgur


Aðspurður segir Helgi samvinnu Heilbrigðiseftirlits Vesturlands (HeV) við framleiðendur nær undantekningalaust mjög góða. Hlutverk HeV er fyrst og fremst gefa leiðbeiningar, veita leyfi til matvælaframleiðlsu og eftirfylgni. „Við erum með reglulegt eftirlit með matvælaframleiðendum. Það er þó mikilvægt að framleiðandinn sé sjálfur meðvitaður um þá ábyrgð sem fylgir því að selja matvöru. Framleiðandinn ber alltaf ábyrð á sinni vöru og það þýðir ekki að horfa til okkar og spyrja hvar eftirlitið hafi verið þegar allt er komið í óefni,“ segir Helgi brosandi og bendir á að undanfarið hafi borist þónokkrar fréttir af nóruveirusmiti hér á landi. „Þetta er bráðsmitandi veira sem smitast ekki bara beint á milli manna. Nóróveiran getur líka smitast í gegnum matvöru komist hún þangað,“ segir hann. „Þetta er hræðileg veira sem er erfitt að greina nema í fólki og því smitast hún mjög auðveldlega með matvælum. Það er rík ástæða fyrir áherslu okkar á hreinlæti og svo er mikilvægt að fólk sé ekki að koma nálægt matvælaframleiðslu nema það sé alveg frískt,“ segir hann.


Undanþegin matvælaframleiðsla


Þeir sem framleiða matvöru og selja fyrir góðgerðasamtök eða íþróttafélög eru undanþegnir leyfi til matvælaframleiðslu, enda ætti kaupandinn að vera meðvitaður um að varan gæti hafa verið framleidd í heimahúsi. Þó vill Helgi biðla til þeirra sem standa í slíkri framleiðslu að hafa í huga að þeir þurfa að fara eftir sömu reglum og aðrir varðandi hreinlæti. „Matvæli eru alltaf matvæli, sama hvort um er að ræða löglegan framleiðanda eða ekki. Með löglegum framleiðanda er ég að meina þá sem hafa leyfi til framleiðslunnar frá okkur eða Matvælastofnun. Og það þarf alltaf að gæta vel að því að fara eftir öllum reglum,“ segir hann. „Það er vissulega jákvætt hversu margir vilja láta gott af sér leiða og framleiða matvörur til styrktar góðum málefnum. En það gæti farið illa ef ekki er passað upp á hreinlæti og að þeir sem koma að framleiðslunni séu frískir,“ bætir hann við.


Ósáttur við fyrirhugaðar breytingar


Hvaða ráð getur Helgi gefið þeim sem eru að hugsa um að fara í framleiðslu á matvælum? „Fyrst og fremst að fólk hugsi málið áður en það byrjar því ábyrgðin er mikil. Það er mikilvægt að hafa góða aðstöðu og ég get ekki sagt það nógu oft hversu mikilvægt hreinlætið er. Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir að lykt er líka partur af hreinlæti. Ef það er ólykt í loftinu getur hún farið í matvælin, sérstaklega ef um er að ræða feita matvöru,“ svarar hann. Spurður um þau skref sem fólk þurfi að taka ef það ætlar að hefja framleiðslu á matvælum segir hann fyrsta skrefið vera að hafa samband við heilbrigðiseftirlitið sem geti leiðbeint viðkomandi með framhaldið. „En það gæti þó breyst og vil ég hér með formlega gagnrýna stjórnvöld sem ætla að koma af stað nýju skráningarkerfi. Með því kerfi er ég hræddur um að við missum sjónar af aðilum í matvælaframleiðslu. Þetta á að vera miðlægt skráningarkerfi þar sem viðkomandi framleiðandi skráir sig bara í gegnum island.is og skráningin fer inn á borð Umhverfisstofnunar sem svo þarf að senda hana áfram til embættanna úti á landi. Þetta kerfi á að minnka flækjustig en mun að ég held bara auka það ef eitthvað er,“ segir Helgi. „Í dag hefur fólk samband við heilbrigðiseftirlitið ef það ætlar að hefja matvælaframleiðslu og við komum og tökum út aðstöðuna áður en framleiðsla hefst. En ef fólk heldur að það sé bara nóg að skrá sig á netinu og byrja svo er ég hræddur um að framleiðsla hefjist löngu áður en við vitum af skráningunni. Í stað þess að framleiðendur komi til okkar þurfum við að leita þá uppi,“ segir Helgi.


Fjölga starfsmönnum


Helgi hefur starfað fyrir Heilbrigðiseftirlit Vesturlands frá stofnun þess árið 1984 og hefur því séð margar breytingar eiga sér stað. „Ég hef séð þetta allt,“ segir hann og hlær. Töluverðar breytingar hafa orðið í matvælaframleiðslu með aukinni ferðaþjónustu og segir Helgi svo mikið vera að gera hjá heilbrigðiseftirlitinu að ákveðið var að bæta við starfsmanni um áramótin. „Matvælaframleiðsla í landhlutanum blómstrar, sem er ánægjulegt að sjá, en það hefur aukið álagið hjá okkur, sem höfum verið tvö í þessu frá því Heilbrigðiseftirlit Vesturlands og Heilbrigðiseftirltið á Akranessvæði fór í eina sæng árið 1999. Fram að því var ég einn hjá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og annar starfamaður var á Akranesi. Núna ráðum við ekki við þetta lengur og verður þriðja starfsmanninum bætt við um áramótin,“ segir Helgi.



Recent Posts

See All
bottom of page