top of page

Matarauður – okkur að góðu!

Grein frá 2019

Sérstaða íslensks hráefnis og íslenska matarmenningin er verkefni Matarauðs Íslands, sem vinnur m.a. að því að draga fram sérstöðu beggja og auka þekkingu og ásókn í íslenskar matvörur og afurðir. Verkefnið heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og hefur notið góðs af breiðu samstarfi við hagaðila og atvinnulíf. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að styðja við hagnýt verkefni, styrkja og þétta raðir þeirra sem halda uppi matarferðaþjónustu og nærsamfélagsneyslu vegna tengingar við sjálfbærni. Framlag Matarauðs hefur einkum falist í handleiðslu, ráðgjöf og styrkjum til verkefna sem efla heildarhagsmuni.



Við njótum þeirrar gæfu að búa við matarauð sem byggir á dýrmætri frumkvöðlahefð sem gengið hefur kynslóða á milli. Matarhandverk er okkur hugleikið og dýrmæt arfleifð sem hlúa þarf að. Í samvinnu við Matís stöndum við að Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki nú í nóvember og er haldið í annað sinn. Samtíminn og framtíðin skipta líka máli og er Matarauður ennfremur einn af bakhjörlum hins fyrsta viðskiptahraðals sem leggur áherslu á matvæli bæði til sjávar og sveita.

Þegar horft er til mikilvægi sjálfbærrar þróunar og byggðafestu þá skipta litlu fyrirtækin og býlin máli. Mikil þörf reyndist fyrir því að þétta raðir matarfrumkvöðla og smáframleiðanda matvæla og fengum við Oddnýju Önnu Björnsdóttur í það verkefni ásamt því að stofna og fylgja eftir REKO- hringjum um allt land. Þeir eru byggðir á finnskri verðlaunafyrirmynd og snúast um milliliðalaus viðskipti á svæðisbundnum vörum. Þá unnum við að samantekt um regluverk sem þrengir að möguleikum bænda til að geta boðið upp á heimaeldaðan mat sem nýtur æ meiri vinsælda erlendis.

Matarauður hefur lagt mikla áherslu á mikilvægi matar í víðum skilningi ekki síst innan ferðaþjónustu. Mörg sóknarfæri liggja þar og hefur Matarauður í því skyni samið við allar markaðsstofur/landshlutastofur um að efla samvinnu, greina tækifæri, styrkja nærsamfélagsneyslu og auka þekkingu á matarmenningu. Matvæli gegna ennfremur lykilhlutverki í samnorrænu verkefni um staðbundinn mat í ferðaþjónustu framtíðarinnar. Þar er horft til tækifæra sem blasa við okkur vegna loftslagsbreytinga og neysluhegðunar og er verkefnið leitt af Matarauði Íslands. Afraksturinn á m.a. að skila stefnumótandi áherslum sem hvert land getur aðlagað að sínu umhverfi. Loftslagsmál, umhverfisvernd og lýðheilsa eru einnig mikilvægir liðir í innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila, sem var leidd af Matarauði Íslands í samstarfi við þrjú önnur ráðuneyti og sambandi íslenskra sveitafélaga. Í henni er lögð áhersla á öflugra samstarf við matvælaframleiðendur, rekjanleika, kolefnisreiknivél máltíða og nýsköpunar í samningum.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og verkefnið Krakkar kokka var prufukeyrt síðasta vetur. Það leggur áherslu á að fræða grunnskólabörn um íslenskar matarhefðir, nærsamfélagsneyslu, sjálfbærni og matarsóun á skemmtilegan hátt. Fræðsluumgjörðin mun standa öllum grunnskólum til boða. Í framhaldi af því verkefni kviknaði m.a. hugmynd um inniræktun matjurta í grunnskólum sem verið er að skoða.

Við hvetjum alla til að leita fanga á vefsíðu Matarauðs og nýta sér efni hennar. Þar má m.a. sjá uppskriftir frá vitundarvakningaherferðum okkar sem unnar eru í samstarfi við Hótel- og matvælaskólann. Við vonum að efni hennar kveiki áhuga og auki þekkingu og höfum hugfast að matur leysir kannski ekki öll vandamál en án matar verða engin vandamál leyst!

- Brynja Laxdal

Recent Posts

See All
bottom of page