top of page

Ræktar ávexti og grænmeti á Akranesi

Viðtal frá 2017

Jón Guðmundsson garðyrkjubóndi hefur ræktað epli í garðinum sínum á Akranesi um nokkurt skeið en nú hefur hann stækkað við sig. Fyrir rúmlega ári fékk hann úthlutað landi til leigu við Miðvogslæk, skammt utan við Akranes, til að setja upp garðyrkjustöð, þangað sem blaðamaður kíkti til hans í stutt spjall. „Hér er meiningin að vera með fjölbreytta ræktun og prófa nýja hluti. Þetta er nú óttalegt fikt í mér, ég er kominn með allskonar ávaxtatré og berjarunna sem ég ætla að prófa mig áfram með. En það er ekki hægt að vera eingöngu í svona fíflagangi svo ég er líka að rækta þetta hefðbundna; matjurtir, kartöflur, tré og grænmeti,“ segir Jón og hlær.



Ánægður með fyrstu uppskeruna


Nú er fyrsta uppskera Jóns á nýja svæðinu öll að verða tilbúin og er hann mjög ánægður með afraksturinn. „Ég setti niður margar ólíkar tegundir af ávaxtatrjám og berjarunnum og mun svo bara sjá hvað virkar og hvað ekki. Ég er ánægður með fyrstu uppskeru, en trén eru öll óþroskuð ennþá og það tekur aðeins lengri tíma að sjá hvað komi til með að virka við þessar aðstæður. Grænmetið og matjurtirnar hafa vaxið mjög vel hér enda er þetta einstaklega góður jarðvegur,“ segir Jón og bætir því við að það sé misskilningur að ávextir vaxi einvörðungu í heitum löndum. „Eplin þurf aðeins um 12 gráðu meðalhita yfir sumartímann og það nær því oftast hér. Það er aftur á móti vindurinn sem spilar meira inní. Ef það er skjólgott á vel að vera hægt að rækta fjölbreyttara úrval ávaxta hér á landi,“ segir hann. Meðal þess sem Jón er að prófa sig áfram með eru ólíkar tegundir af eplatrjám, perutré, kirsuberjarunnar og gojiberjarunnar. „Þetta er að ég held í fyrsta skipti sem einhver reynir að rækta gojiber hér á landi, allavega í langan tíma. Ég er mjög ánægður með hvernig runnarnir eru að taka við sér fyrsta sumarið, þó það séu engin ber komin ennþá,“ segir Jón.



Reisti gróðurhús


„Ég hef verið að fikta við ræktun í mörg ár og á ég nokkur mjög góð eplatré sem hafa verið að gefa mjög vel af sér í nokkur ár. Þetta er fyrsta árið sem ég er að rækta og selja. Ég hef verið að selja í Matarbúri Kaju hér á Akranesi og svo var fyrsti veitingastaðurinn að koma inn, vonandi verða þeir svo fleiri,“ segir Jón. Í upphafi septembermánaðar reisti hann fyrsta gróðurhúsið við Miðvogslækinn. „Þetta hús er hugsað sem uppeldishús og vinnuaðstaða. Þarna ætla ég að sá nýjum plöntum og koma þeim upp áður en ég set þær niður hér fyrir utan,“ segir Jón. „Það er svo aldrei að vita nema seinna meir komi upp annað hús sem ég get notað fyrir frekari ræktun,“ bætir hann við að lokum.



Recent Posts

See All
bottom of page